| | |

Eldsmiðjan, sex ólíkar tónlistarkonur á Patreksfirði.

Þriðjudaginn 23. september leggja sex ólíkar tónlistarkonur upp í langferð. Förinni er heitið til Patreksfjarðar en þar ætla konurnar að vinna í pörum að því að skapa nýja tónlist. Stelpurnar sem um ræðir eru þær Íris Hrund, Rósa Guðrún, Soffia Björg, Sunna Gunnlaugs, Una Stef og Þóra Gísladóttir.

Verkefnið ber heitið Eldsmiðjan og stendur félag kvenna í tónlist, KÍTÓN, fyrir smiðjunni.

Í lok vikunnar munu tónlistarkonurnar síðan halda tónleika í Sjóræningjahúsinu á Patreksfirði þar sem tvær og tvær koma fram á hverjum tónleikum.

Fyrstu tónleikarnir verða á föstudagskvöldinu 26. september og hefjast þeir klukkan 21 en það eru þær Soffía Björg og Sunna sem ríða á vaðið.

Á laugardagskvöld er veislunni haldið áfram. Tónleikar þetta kvöld hefjast einnig klukkan 21 og munu þær Rósa Guðrún og Una Stef troða upp það kvöld.

Botninn verður svo sleginn í Eldsmiðjuna á sunnudeginum en þá koma þær Íris Hrund og Þóra fram á síðustu tónleikum Eldsmiðjunnar 2014. Tónleikarnir hefjast klukkan 16.

Umsóknarfrestur í Átak til Atvinnusköpunar er 26.september nk.

Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur auglýst eftir umsóknum í Átak til Atvinnusköpunar á heimasíðu sinni.

Átak til atvinnusköpunar er styrkáætlun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins fyrir nýsköpunarverkefni og markaðsaðgerðir starfandi frumkvöðla- og nýsköpunarfyrirtækja. Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur umsjón með umsóknarferlinu fyrir hönd atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.


Markmið verkefnisins

  • Að styðja við þróun nýsköpunarhugmynda á fyrri stigum sem hlotið gætu frekari fjármögnun sjóða og fjárfesta.
  • Að styðja við undirbúning og framkvæmd markaðsaðgerða í frumkvöðla og sprotafyrirtækjum.

Sérstök áhersla er lögð á:

  • Verkefni sem skapa ný störf
  • Nýsköpun og/eða samstarfsverkefni sem byggja á hönnun
  • Nýsköpun sem á sér stað í klasasamstarfi
  • Verkefni sem eru að stíga sín fyrstu skref á alþjóðamarkaði

Heimasíða Átaksins.

Nýsköpunarstyrkur til að ráða námsmann

Auglýst er eftir umsóknum um 4 styrki að upphæð ein milljón hver  til fyrirtækja og/eða stofnana sem eru lögaðilar á Vestfjörðum,  til þess að ráða nýútskrifaðan háskólanema í nýsköpunarverkefni eða þróunarverkefni á vegum fyrirtækisins/stofnunarinnar.

Íbúafundur á Bíldudal 2.apríl

Miðvikudagskvöldið, 2. apríl er boðið til opins íbúafundar á Bíldudal í tengslum við verkefnið „Bíldudalur – samtal um framtíðina“.

Viðhorfskönnun ferðaþjóna á Vestfjörðum 2013.

Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða gerði á dögunum viðhorfskönnun meðal aðila í ferðaþjónustu á Vestfjörðum. Send var netkönnun á netföng 170 aðila á póstlista Markaðsstofu Vestfjarða og var svarhlutfallið 35% sem er um 5% aukning frá könnun 2012.